Erfðanefnd landbúnaðarins

Íslenski hundurinn

Canis Lupus Familiaris

Heim 5 Búfé 5 Íslenski hundurinn

Uppruni og saga

Af frásögnum og rannsóknum á hundabeinum má ráða að til hafi verið nokkur hundakyn í landinu á liðnum öldum. Íslenski hundurinn telst til svokallaðra spitz hundakynja, en einstaklingar af þeim kynjum eru meðalstórir, með upprétt eyru, hringað skott og spora á bæði fram- og afturlöppum. Svipur íslenska hundsins er oft brosleitur og er öruggt og fjörlegt fas einkennandi fyrir íslenska fjárhundinn. Íslenski fjárhundurinn er úthaldsgóður smalahundur sem geltir og nýtast þeir eiginleikar við rekstur os smölun búfénaðar úr haga eða af fjalli. Þetta er glaður og vingjarnlegur hundur með ljúfa lund, forvitinn og óragur við vinnu. Kynið hentar vel til margra starfa en flestir hundarnir eru þó heimilishundar í dag. 
Íslenski fjárhundurinn er afrakstur björgunaraðgerðar sem hófust um miðja 20. öld, en þá var farið að safna saman hundum með einkenni fjárhunda eins og þeim var lýst. Svipuð útlitseinkenni í norskum og sænskum hundum benda til sameiginlegs uppruna.

Í dag telur stofninn hér á landi milli eitt og tvö þúsund einstaklinga og um ellefu þúsund hafa verið skráðir erlendis, en óvíst er hve margir þeirra eru enn lifandi (Guðríður Þ. Valgeirsdóttir, 2013, munnleg heimild).

 

 

Ræktunarstarf og nýting

 

Sérstök deild er innan Hundaræktarfélags Íslands, Deild íslenska fjárhundsins (DIF) og hafa verið sett ítarleg ræktunarmarkmið fyrir íslenska hundinn og reglur um skráningu einstaklinga í ættbók (www.dif.is). Erfðagrunnur stofnsins er mjög þröngur, „stofnhundar“ eru aðeins 23 og við greiningu á ætternisskrám kemur fram að þrír hundar eru ríkjandi forfeður með yfir 80% erfðaframlag. Í rannsókn sem gerð var á erfðabreytileika íslenska fjárhundsins 2005 með stuðningi erfðanefndar landbúnaðarins kom fram að meðalskyldleikarækt reyndist að meðaltali 22%. Erfðabreytileiki mældist svipaður og í þeim hundakynjum sem borin voru saman.
Erfðarannsókn á hundakynjum á Norðurlöndum sem gerð var til að finna hundakyn sem væru líkleg til að koma norska Lundahunden til bjargar með innblöndun, þ.á.m. var íslenski fjárhundurinn.

 

 

Varðveislugildi

Íslenski hundastofninn er mjög vel skráður og mikill áhugi fyrir ræktun hans á þeim forsendum sem gilda um slíka stofna.

Nauðsynlegar aðgerðir

     Mælst verði til þess við Deild íslenska fjárhundsins hjá Hundaræktarfélagi Íslands að veita erfðanefnd landbúnaðarins árlega upplýsingar  um stofnstærð og erfðafræðilega stöðu stofnsins.

     Stutt verði við sérstök verkefni til verndar stofninum eftir því sem erfðanefnd telur ástæðu til.

     Hugað verði að því að safna erfðaefni úr íslenska fjárhundinum til langtímageymslu.

Rannsóknir

Rannsókn styrkt af erfðanefnd landbúnaðarins var gerð á erfðabreytileika íslenska fjárhundsins og möguleg tengsl erfðabreytileika á heilsu og viðkomu stofnsins. Kannað var hvort beint samband væri á milli skyldleikaræktar og tveggja svipfarseinkenna sem mögulega geta tengst skyldleikaræktun, mjamalos og gotstærð. Niðurstöður sýndu að sterkt samband var á milli skyldleikaræktarstuðuls og mjamaloss þegar notuð voru ætternisgögn en veikt þegar sameindaerfðafræðilegir metlar voru notaðir. Ekki voru marktæk áhrif skyldleikaræktar á gotstærð. Grein um þessa rannsókn má nálgast hér.

Ætternisupplýsingar íslenskra hunda frá sjö löndum voru nýttar í hollenskri rannsókn á erfðabreytileika stofnsins.

 

Heimildir

Heimilsfang

Hvanneyri, 311. Borgarnesi

Tölvupóstur

birna@lbhi.is

Vertu með okkur