Erfðanefnd landbúnaðarins
Mat- og lækningajurtir
Yfirlit – saga
Í íslenskri náttúru finnast ýmsar villtar plöntutegundir sem hafa haft eða geta hugsanlega haft þýðingu til manneldis, ýmist sem matjurtir, kryddplöntur eða til lækninga.
Þær algengustu sem nýttar hafa verið í mat og til lækninga, einkum fyrr á öldum, eru:
- Hvönn (Angelica archangelica)
- Njóli, (Rumex longifolius)
- Hundasúra (R. acetocella)
- Skarfakál (Cochlearia officinalis)
- Bláber (Vaccinium uliginosum)
- Aðalbláber (V. myrtillus)
- Krækiber (Empetrum nigrum)
- Fjallagrös (Cetaria islandica)
- Söl (Rhodymenia palmata)
Einnig hafa villtar plöntur verið notaðar til litunar í gegnum tíðina, bæði háplöntur og fléttur. Ræktun nytjaplantna óx um öll Norðurlönd með tilkomu klaustra á miðöldum og allar líkur eru á að hingað hafi flust ýmsar nytjaplöntur á þeim tíma. Ræktun algengra matjurta varð almenn eftir aldamótin 1800 og einkum þegar kom fram á 19. öldina.
Helstu nytjaplöntur til manneldis
Melgresi (Leymus arenarius)
Melgresi er fjarskyldur ættingi hveitis og var melkorn nýtt í brauðgerð áður fyrr. Áhugi hefur verið á að nýta eiginleika melgresis, eins og þurrkþol, öfluga sprotamyndun og þol gegn ýmsum sjúkdómum, í tengslum við kynbætur hveitis.
Kartaflan (Solanum tuberosum)
Kartaflan kom fyrst til landsins fyrir um 250 árum og skipar nú fastan sess í fæðu þjóðarinnar. Þrjú afbrigði hafa unnið sér þann sess að vera flokkuð sem íslensk en það eru bláar íslenskar, gular íslenskar og rauðar íslenskar.
Gulrófan (Brassica napus var. rapifera)
Líkt og kartaflan kom gulrófan til Íslands á síðmiðöldum. Rakin hefur verið saga gulrófnaræktar á Íslandi og stofnum og staðbrigðum sem hér hafa vaxið lýst (Jónatan Hermannsson, 1999). Í Nytjaplöntum er að finna tvo nafngreinda stofna af gulrófu en það eru Maríubakkarófa og Sandvíkurrófa.
Rabarbarinn (Rheum x hybridum)
Rabarbarinn á sér a.m.k. 130 ára langa og farsæla ræktunarsögu hérlendis. Schierbeck landlæknir sem starfaði hér á árunum 1882-1890 var m.a. ötull við að dreifa rabarbara um landið. Plantan er harðger og snemmsprottin og má víða um land sjá myndarlega rabarbaragarða strax í fyrri hluta júnímánaðar.
Berjarunnar
Á Íslandi vaxa nokkrar tegundir villtra berja. Á 19. öld var farið að flytja inn berjarunna frá útlöndum til ræktunar í görðum. Var það einkum rifs (Ribes spicatum) og var „rautt hollenskt“ flutt inn og gróðursett. Gegnum tíðina gætu hafa orðið til ný afbrigði hér á landi en það hefur ekki verið kannað.
Með tíð og tíma gætu hafa orðið til ný afbrigði hér á landi en það hefur ekki verið kannað. Miklu minna hefur verið ræktað af sólberjum (Ribes nigrum), hindberjum (Rubus idaeus) og stikilsberjum (Ribes uva-crispa).
Villilaukur (Allium oleraceum)
Villilaukur er talinn hafa borist til landsins á miðöldum. Hann finnst nú á nokkrum stöðum á landinu, einkum í Borgarfirði.
Varðveislugildi
Ex situ varðveisla
Hjá NordGen eru nú varðveittir stofnar af melgresi og af gulrófu, m.a. skilgreindu yrkin Maríubakkarófa og Sandvíkurrófa. Landbúnaðarháskóli Íslands ber ábyrgð á varðveislu íslensku kartöfluafbrigðanna og eru bæði rauðar íslenskar og gullauga í sérstakri stofnrækt skv. reglugerð um kartöfluútsæði nr. 455/2006.
Safn 7 rabarbarayrkja sem safnað var árið 1978 er geymt í Grasagarði Reykjavíkur. Ennfremur er kominn er vísir að safni berjarunna í Kristnesi í Eyjafirði.
Aðrar tegundir, sem verið hafa í ræktun hér í a.m.k. í hundrað ár eins og graslauk, skessujurt og jafnvel spánarkerfil, þyrfti að rannsaka og jafnvel varðveita sem sérstök yrki. Þetta eru tegundir hafa verið taldar ómissandi í jurtagarða alveg frá miðöldum.
Flestar tegundir villtra nytjaplantna eru algengar um allt land og varðveitast því best úti í náttúrunni. Undantekning frá þessu er villilaukurinn. Hann er friðaður sem planta í útrýmingarhættu og nauðsynlegt er að huga að varðveislu hans einnig út frá menningarsögulegu gildi. Einnig er rétt að nefna stofn villts kúmens sem vex ennþá á ákveðnum stöðum á Suðurlandi.
Heimildir:
Jónatan Hermannsson, 1999, Gulrófur fyrr og nú. Fjölrit RALA 199, bls. 11-21