Erfðanefnd landbúnaðarins
Garð- og landslagsplöntur
Mikið er til af verðmætum garð- og landslagsplöntum í görðum og grænum svæðum um allt land. Nokkur hluti þessara tegunda eru innlendar trjá- og runnategundir eins og víðir, einir, ilmbjörk og reyniviður auk nokkurra jurtkenndra plantna á borð við burnirót og lyngbúa. Stór hluti garð- og landslagsplantna á Íslandi er þó erlendar tegundir sem garðyrkjumenn hafa valið einstaklinga af til áframhaldandi ræktunar með hliðsjón af þrifum þeirra við íslenskar aðstæður og finnast hvergi annars staðar en á Íslandi. Þessir gömlu klónar, bæði af innlendum og erlendum uppruna, hafa verið valin til ræktunar á rúmlega hundrað ára ræktunarsögu Íslands vegna eftirsóknarverðra ræktunareiginleika og aðlögun þeirra að íslenskum aðstæðum. Þessir klónar hafa löngum lítið verið skilgreindir eða rannsakaðir hvað þrif varðar og eru enn sumir hverjir án sértækra yrkisnafna. Þeir finnast víða um land, í almenningsgörðum, einkagörðum og á grænum opnum svæðum bæjarfélaga. Eins eru villtir stofnar innlendra garðplantna víða í íslenskri náttúru. Ekki getur talist raunhæft að halda skrá yfir upprunalega eða náttúrulega vaxtarstaði allra garðplantna en ákveðnir hópar og einstaklingar plantna gegna þó mikilvægu menningarsögulegu hlutverki og er full ástæða til að varðveita þá einstaklinga á upprunastað sínum ásamt sögu þeirra (in situ).
Í kjölfarið á breyttum tollalögum innfluttra plantna 2007 jókst mjög innflutningur á erlendum yrkjum á kostnað ræktunar eldri klóna sem voru jafnvel betur aðlagaðir íslenskum aðstæðum. Til að tryggja áframhaldandi ræktun og framleiðslu harðgerra plantna í garðrækt var ljóst að það þurfti að rannsaka og skilgreina betur þann efnivið sem reynsla var komin á. Því var verkefnið Yndisgróður stofnað innan Landbúnaðarháskóla Íslands (https://yndisgrodur.lbhi.is) og hefur það frá árinu 2007 unnið að rannsóknum á garð- og landslagsplöntum. Til að auka yfirsýn yfir garð- og landslagsplöntur á Íslandi og stuðla að samanburði á þrifum þeirra milli landshluta kom Yndisgróður á fót klónasafni við starfsstöð Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi og fimm sýningarreitum dreift um landið (Kópavogi, Reykjavík, Sandgerði, Blönduós og Hvanneyri). Á Reykjum eru nú hátt í 400 yrki eða klónar af tæplega 200 tegundum. Eins heldur Yndisgróður úti skrá yfir rúmlega 1.000 yrki sem unnið hefur verið með í verkefninu. Markmið Yndisgróðurs er jafnframt að skilgreina og velja úr safni sínu hentugar garð- og landslagsplöntur og stuðla að ræktun þeirra meðal garðplöntuframleiðenda.
Besta leiðin til að viðhalda þeirri fjölbreytni sem er til staðar er að opinberir aðilar jafnt sem einkaaðilar noti vel aðlöguð yrki garð- og landslagsplantna sem mest. Einnig er reynsla og þekking á ræktun innlendra tegunda mikilvæg þegar nýta þarf landslagsplöntur við frágang á náttúrusvæðum auk þess sem möguleg tækifæri gætu verið fólgin í því að rækta tegundir sem lítið eða ekki hafa verið í ræktun áður. Garðplöntuframleiðendur gegna lykilhlutverki í að koma tegundum og yrkjum á markað og tryggja þannig útbreiðslu þeirra í görðum og á grænum svæðum. Klónasafn Yndisgróðurs tryggir aðgengi framleiðenda að vel völdum og skilgreindum efnivið með því að bjóða reglulega upp á græðlingatöku og frætöku. Söfn Yndisgróðurs gegna jafnframt mikilvægu hlutverki í að varðveita efnivið garð- og landslagsplantna. Ýmis trjásöfn á Íslandi auk Grasagarðs Reykjavíkur og Lystigarðs Akureyrar varðveita umtalsvert safn ræktaðra plantna og eiga mörg ræktuð yrki á Íslandi uppruna sinn í þeim görðum.
Nauðsynlegar aðgerðir
Tryggja áframhaldandi rannsóknir á garð- og landslagsplöntum á Íslandi.
Stuðla að varanlegri skráningu á uppruna, útbreiðslu og notkun á íslenskum efnivið garð- og landslagsplanta.
Stuðla að skráningu staðsetningar plantna með menningarsögulegt gildi.
Tryggja aðgengi almennings og fagaðila að upplýsingum um garð- og landslagsplöntur vel aðlagaðar að íslenskum aðstæðum.
Stuðla að því að komið verði á fót sýningarreitum Yndisgróðurs í öllum landshlutum.
Hvetja opinbera aðila jafnt sem einkaaðila til að nota harðger yrki garð- og landslagsplantna. Samhliða því þarf að tryggja aðgengi ræktenda að móðurplöntuefnivið þessara tegunda.
Vernda búsvæði íslenskra tegunda og nánustu skyldleikahópa sem hafa gildi fyrir garðrækt á Íslandi og Norðurlöndum.
Hvetja til notkunar og rannsókna á innlendum plöntum við frágang framkvæmda á sérstökum náttúrusvæðum.
Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2019). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2019-2023. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins.