Erfðanefnd landbúnaðarins
Eldi íslenskra ferskvatnsfiska
Yfirlit
Eldi á ferskvatnsfiskum hér á landi hefur verið reynt með misjöfnum árangri. Tilraunir með hafbeit á laxi hófust á árunum um 1970. Hafbeit skilaði nokkrum árangri og náði hámarki á árunum eftir 1990 en lagðist svo af hér á landi 1999 einkum vegna lágrar endurheimtu og erfiðra markaðsaðstæðna.
Talsverð uppbygging varð í fiskeldi hér á landi á árunum 1980-1990. Mest var alið af laxi í fyrstu en síðar varð einnig uppbygging í bleikjueldi. Miklir erfiðleikar fylgdu þessari uppbyggingu. Framleiðsla á eldislaxi var að meðaltali um 2.500 tonn á árunum frá 1990 og fram yfir 2000 þegar framleiðslan jókst í það að vera milli 5 og 6 þúsund tonn á ári. Dregið hefur hratt úr þessari framleiðslu síðustu ár og mun henni nú að mestu hafa verið hætt.
Eldi bleikju hefur farið vaxandi undanfarin ár eftir töluverða erfiðleika í upphafi en tölur um framleiðslu sýna um 1.000 tonna framleiðslu á ári undanfarin ár.
Lagarammi
Um eldi vatnafiska gilda lög nr. 57/2006 en þar er m.a. ákvæði til að minnka líkur á áhrifum fiskeldis á villta stofna. Innflutningur tegunda fiska hingað til lands er almennt háð ströngum skilyrðum. Á síðustu árum hefur borið á því að kaldvatnsfiskar hafi verið fluttir hingað til lands sem skrautfiskar en sumar tegundir þeirra gætu lifað í íslenskri náttúru ef þeir bærust þangað.
Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2014). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2014-2018. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins