Erfðanefnd landbúnaðarins

Búfé

Íslenskt búfé

Þær tegundir íslensks búfjár sem falla undir starfsemi erfðanefndarinnar eru þær tegundir sem eru og hafa verið nýttar í íslenskum landbúnaði frá upphafi byggðar án innblöndunar með erlendu erfðaefni. Því er um að ræða eftirfarandi stofna:

^

Íslenska kýrin

^

Íslenska sauðkindin, þ.m.t. forystufé

^

Íslenski hesturinn

^

Íslenskar geitur

^

Landnámshænsni

^

Íslenski hundurinn

Búfjárstofnar sem nýttir eru í landbúnaði en byggja að mestu eða öllu leyti á innflutningi erfðaefnis eru undanskildir. Dæmi um slíka stofna eru alifuglar og svín.

Íslensk búfjárrækt – almenn einkenni

Íslensk búfjárrækt hefur þá sérstöðu, miðað við það sem gerist meðal nágrannaþjóða, að stofnarnir hafa búið við mikla einangrun allt frá landnámi. Undantekningar á þessu felast í innflutningi á nokkrum dönskum nautgripum á 19. öld og innflutningi á sauðfé, seinast rétt fyrir miðja síðustu öld. Engar heimildir eru um innflutning hrossa eða geita. Því má telja að þessar tegundir séu afkomendur þeirra gripa sem fluttir voru hingað kringum landnám. Ræktunarsaga búfjárkynjanna er orðin löng og sameiginleg nýting gripa á landsvísu með tilkomu sæðingastarfsemi gerir það að verkum að íslenska búféð telst í meginatriðum einn ræktunarhópur innan hverrar tegundar.

Náttúra og veðurfar hafa gengum tíðina haft áhrif á þróun og viðgang íslenskra búfjárstofna og aðlagað þá íslenskum aðstæðum. Þetta á sérstaklega við um sauð- og geitfé ásamt hrossum. Í seinni tíð hefur bætt og aukin fóðrun samhliða bættum húsakosti gert áhrif veðurfars og náttúru óveruleg. Miðstýrð sæðingastarfsemi ásamt markvissum ræktunaráætlunum sem unnar eru fyrir sauðfé (undanskilinn er stofn forystufjárins), nautgripi og hross hraða erfðaframförum í þá kynbótastefnu sem mótuð er. Smærri stofnarnir, þ.e. forystufé, geitur, hundar og landnámshænsn eru afkomendur tiltölulega fárra dýra og búa því að smæð sinni sem getur haft neikvæð áhrif á formi aukins innbyrðis skyldleika gripa. Á þetta einkum við um geiturnar sem er sá íslenski búfjárstofn sem mest hætta er á að glatist sé ekki haldið rétt um taumana. Þessir smáu stofnar hafa þó á síðustu misserum náð auknum vinsældum meðal almennings og ráðamanna og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar þeirra orðið ljóst.
Eitt af séreinkennum íslenskrar búfjárræktar er að útlitseinkenni eins og litir og hornalag hafa ekki verið samræmd eins og tíðkast þegar mikilvægt var talið að þekkja mætti t.d. tvö kúakyn í sundur. Fyrir vikið má finna mikinn útlitslegan breytileika hjá íslensku búfé.

Mat á varðveislugildi

Ýmsum aðferðum er beitt til að meta varðveislugildi stofna. Oft er miðað við aðra stofna í sama landi, en jafnframt litið svo á að stóra stofna þurfi ekki að meta sérstaklega, enda sé ekki þörf aðgerða til varðveislu. Stóru íslensku búfjárkynin falla í þann flokk en ef til þess kemur að meta eigi varðveislugildi gagnvart öðrum kynjum eru nokkur atriði sem hafa þarf í huga:

 

 1. Er stofninn í fyrirsjáanlegri útrýmingarhættu?
 2. Er stofninn aðlagaður sérstökum umhverfis­skilyrðum?
 3. Er stofninn markaðslega samkeppnisfær við aðra stofna?
 4. Býr stofninn yfir einstæðum eiginleikum?
 5. Hefur stofninn þjóðmenningarlegt og sögu­legt gildi?
 6. Er stofninn mikilvægur til að viðhalda almennri erfðafjölbreytni innan tegundar­innar?

Leiðir til varðveislu

Þrjár leiðir eru jafnan nefndar til verndar búfjárkynjum:

 1. In situ varð­veisla þar sem gripirnir eru haldnir til framleiðslu og stofninn fjárhagslega sjálfbær til lengri tíma litið. Með því helst erfða­breytileiki við og stofninn varðveitir aðlögunar­hæfni.
 2. Ex situ varðveisla felur í sér að gripir eru aðeins haldnir í varðveisluskyni. Gripir eru fáir, framleiðsla lítil og kostnaður hár. Sérstaða stofnsins helst en aðlögunarhæfni síður.
 3. Cryoconservation varðveisla felur í sér varðveislu á frystum fósturvísum/sæði sem gerir mögulegt að endur­skapa erfðahópinn, en telja verður þennan mögu­leika í raun fræðilegan því ólíklegt er að þær aðstæður skapist að búinn verði til nýr ræktunarhópur frá fósturvísum.

Nauðsynlegt er að fylgjast vel með skyldleikarækt hjá geitfé, naut­gripum, hrossum og sauðfé. Þátttaka í skýrsluhaldi er almenn og ætt­færslur góðar, það eru því allir möguleikar á að forðast skyldleikarækt. Að óbreyttu verður því að telja að varðveisla erfða­fjölbreytileika nautgripa, sauðfjár og hrossa sé í góðu lagi og ekki ástæðatil sérstakra aðgerða varðandi þá stofna. Það er því mkilvægara að huga að verndun geitastofnsins og eftirliti með forystufé. Erfðanefnd landbúnaðarins gaf út árið 2012 verndaráætlun fyrir íslenska geitastofninn. Auk þess má benda á mikilvægi þess að fylgst sé með einstökum litum og öðrum eiginleikum í búfé. Endurtekið hafa komið upp hugmyndir um innflutning erfðaefnis til blöndunar við kúakynið og mun slíkur inn­flutningur hafa áhrif á varð­veislu­gildi stofnsins.

Nauðsynlegar aðgerðir

 • Að vekja athygli stjórnvalda á nauðsyn þess að vinna að stofnun genbanka fyrir erfðaefni búfjár og tryggja þannig langtíma varðveislu erfðaefnis.
 • Stuðla að erfðarannsóknum á íslenskum búfjárkynjum sem leiði í ljós þróun og stöðu þeirra með tilliti til erfðabreytileika og nýta niðurstöður í átt að sjálfbæru ræktunarstefnu.
Heimilsfang

Hvanneyri, 311. Borgarnesi

Tölvupóstur

birna@lbhi.is

Vertu með okkur