Erfðanefnd landbúnaðarins
Íslensk hænsn
Gallus Domesticus
Uppruni og saga
Núverandi stofn svokallaðra landnámshænsna er kominn af fuglum sem safnað var saman víða um land á árunum 1974-1975. Rannsóknir á stofninum eru fáar og ekki hægt að fullyrða um uppruna út frá þeim. Vefjaflokkar eru að mestu frábrugðnir vefjaflokkum hænsna í nágrannalöndunum og erfðafræðirannsóknir hafa sýnt fram á sérstöðu miðað við gömul skandínavísk kyn. Erfðafjölbreytileiki íslenska hænsnastofnsins var skoðaður með stuðningi frá erfðanefnd landbúnaðarins árið 2011. Reyndist erfðabreytileiki nokkur og virk stofnstærð rúmlega 36 einstaklingar, en til samanburðar er hún á bilinu 70 til 3000 fyrir ýmsa staðbundna stofna í Evrópu. Ekki er hægt að tala um sérstakt skýrsluhald fyrir stofninn með ætternisupplýsingum.
Ræktunarstarf og nýting
Stofnað hefur verið Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna (ERL, sjá www.haena.is) sem hefur tekist með virku félagsstarfi, m.a. sýningahaldi, að vekja talsverðan áhuga á stofninum. ERL hefur mótað lýsingu á einkennum íslensku landnámshænunnar og hefur með stuðningi erfðanefndar landbúnaðarins gert námsefni og haldið námskeið fyrir ræktendur. Úttekt var gerð á afurðum og einkennum íslenska hænsnastofnsins. Þar kom fram að mikil litafjölbreytni er í stofninum og flest hænsn bera einfaldan kamb en þó eru aðrar kambgerðir til staðar. Sumar hænur bera fjaðratopp á höfði og sporar og fiðraðir fætur eru til staðar í stofninum en ekki í miklum mæli. Fjölbreytni í litum og útlitseiginleikum hænsnanna er jákvætt fyrir áhuga fólks á ræktun þeirra til yndisauka.
Upplýsingar um fjölda og fjölbreytni íslenska hænsnastofnsins eru takmarkaðar. Talið er að stofninn telji á bilinu 3000-4000 fugla.
Nauðsynlegar aðgerðir
Mælst verði til þess við ERL að haldin verði skrá yfir fjölda ræktenda og fjölda fugla innan vébanda félagsins og að félagið skili skýrslu til erfðanefndar landbúnaðarins árlega.
Stutt verði áfram við sérstök verkefni til styrktar hænsnastofninum eftir því sem erfðanefnd telur ástæðu til.
Hugað verði að því að safna erfðaefni úr stofninum til langtímageymslu.
Varðveislugildi
Upplýsingar um fjölda og fjölbreytni íslenska hænsnastofnsins eru takmarkaðar en talið er að stofninn telji yfir 3000 fugla. Eigenda- og ræktendafélags Landnámshænsna (ERL) var stofnað 1. nóvember 2003. Meginmarkmið félagsins er að halda stofninum hreinum, heilbrigðum, litfögrum og stuðla að upplýsingum og leiðbeiningum fyrir eigendur og ræktendur. Félaginu hefur með virku félagsstarfi, m.a. sýningum, að auka áhuga á ræktun hænsnanna sem stuðlað hefur að fjölgun þeirra á undanförnum árum. Ræktunar markmið fyrir stofninn má finna á heimasíðu ERL .