Erfðanefnd landbúnaðarins

Íslenska sauðkindin

Ovis Aries

Heim 5 Búfé 5 Íslenska sauðkindin

Uppruni og saga

Íslenska sauðféð tilheyrir flokki Norður-Evrópsku stuttrófu fjárkynjanna en í útlitseinkennum líkist það mest norska dindilfénu (Norsk Spælsau).

Niðurstöður samanburðarrannsókna á sauðfjárkynjum í norðanverðri Evrópu gefa til kynna ótvíræða sérstöðu íslenska stofnsins og staðfesta skyldleika við norskt stuttrófufé og fé frá Græn­landi og Færeyjum.

Ekkert er vitað um fjárfjölda í öndverðu þó heimildir séu um fjármörg bú á Sturlungaöld. Með kólnandi loftslagi og auknu verðmæti ullar urðu afurðir sauðfjárins helstu gjaldmiðlar bænda. Fyrsti innflutningur sem vitað er um var um miðja 18. öld en hann fór hraklega vegna kláða sem kom með innflutta fénu. Var því útrýmt með skipulögðum niðurskurði í flestum sýslum landsins og fjárskiptum eftir fjárlaust ár. Þetta þýddi að fjárstofnar á Suður-, Vestur- og Norðurlandi hurfu en fé af austurhluta landsins kom í staðinn. Frekari innflutningur á síðari öldum varð tilefni kerfisbundins niðurskurðar og fjárskipta.

Oxford Down hrútur sem fluttur var til landsins 1878 bar riðuveiki með sér og upp úr 1930 voru fluttir inn gripir af Border, Leicester og Karakúl fjárkynjum. Með Karakúlfénu fylgdu smitsjúkdómar sem urðu tilefni til kerfisbundins niður­skurðar og fjárskipta fram yfir miðja 20. öld.

Seinasti innflutningur var 1945-46 þegar flutt var inn sæði og hrútar af þremur enskum fjárkynjum. Við fjárskiptin á 20. öld voru þeir ræktunar­hópar sem til voru flestir felldir og blendingar af innfluttum stofnum féllu sömuleiðis.

Þó jafnan sé litið á íslenska sauðfjárkynið sem einn stofn er það nokkur einföldun, því hann skiptist nokkuð afgerandi í hyrnt fé og kollótt með takmarkaðri blöndun þar á milli. Nákvæmar tölur um fjölda af hyrndu og kollóttu fé liggja ekki fyrir en hyrndi stofninn er talinn vera um 70% af heildarstofninum.

Ræktunarstarf og nýting

Bændur hafa lengi stundað það að fá hrúta hver hjá öðrum, þó sauðfjárveikivarnir takmarki flutning milli varnarhólfa. Á seinustu árum eru sæðingar orðnar mjög algengar og flæði erfðaefnis milli landshluta er verulegt. Allt að 60% ásettra hrúta og 15% ásettra gimbra hvert haust eru undan sæðinga­hrútum og því gæti virst nokkur hætta á skyldleikarækt gegnum sæðingahrútana. Á móti kemur að ættfærsla er afar traust og allir möguleikar á að stýra ræktuninni framhjá óhóflegri skyldleikarækt. Þó er nauðsynlegt að fylgjast með þróun skyldleikaræktar og í ræktunar­markmiðum sem samþykkt voru af fagráði í sauðfjárrækt 2012 er tekið fram að gæta skuli að erfðabreytileika stofnsins og að hámarksnotkun sæðingahrúta fari ekki yfir 5000 sæddar ær. Söfnun á frystu hrútasæði er hófst hjá Sauð­fjár­sæðingastöð Suðurlands árið 2005 og er markmiðið að koma upp hliðstæðu safni og hjá nautgripum.

Við fjárskiptin á 20. öld voru þeir ræktunarhópar, sem þekktir fjárræktarmenn höfðu myndað, flestir felldir. Eins fór um áhrif erlendra sauðfjárkynja. Meðan á fjárskiptum stóð voru nánast allar gimbrar settar á og eftir fjárskiptin má því segja að sauðfjárræktin hafi verið sett á byrjunarreit. Enn eru takmarkanir á samgangi og flutningi fjár milli varnarhólfa.
Á seinustu árum eru sæðingar orðnar mjög algengar og flæði erfðaefnis milli landshluta er verulegt. Á sæðingastöðvum eiga bændur val milli kollóttra og hyrndra hrúta, þó mun fleiri hyrndra, sem er í nokkru samræmi við skiptingu stofnsins. Auk þess er erfðaefni úr forystuhrútum, ferhyrndum og hrútum sem bera svokallað Þokugen aðgengilegt á sæðingastöðvum.

Fjárfjöldi er nú um 475 þúsund vetrarfóðraðar kindur og af þeim eru um 90% skýrslufærðar, sem gefur möguleika á að fylgjast náið með skyldleika­rækt innan stofnsins. Íslenski fjárstofninn er svo vel skýrslufærður að annað eins þekkist tæpast í jafn stórum fjár­stofni. Stærðin er nægileg til að standa undir mjög öflugu kynbótastarfi. Íslenska féð hefur þannig mikla sérstöðu meðal skyldra kynja þar sem stofnar eru smáir og jafnvel þegar blandaðir íslensku fé.

Skyld­leika­ræktarstuðull yfir 700.000 lamba fæddra 1998-2002 var að meðaltali um 1,3%. Önnur úttekt á skýrslufærðu fé (fætt 1977-2011) sýndi að skyldleikaræktarstuðull fjár sem fætt var 2011 var að meðaltal um 2,0% ef ekki var tekið tillit til misjafnrar ættfærslu en nær 3,5% hjá gripum með mjög góða ættfærslu. Skyldleikarækt er hægt vaxandi í stofninum og á árunum 2006-2011 mældist aukningin 0,53% á ári á 40 búum með hyrnt fé og 0,42% á ári á 20 búum með kollótt fé.

Varðveist hafa mismunandi litir sem allir eru víkjandi fyrir hvítu og haldast við í stofninum þó svo mislitar kindur séu lítill hluti hans. Erfðavísir fyrir grábotnóttu er þó talinn glataður. Það er fyllsta ástæða til að fylgjast með lita- og hornaafbrigðum svo grípa megi til ráð­stafana ef í óefni horfir. Tvö tilfelli fjölbrigðni eru þekkt sem bæði valda aukinni frjósemi; kennd við ættmæður þeirra ætta þar sem áhrifin komu fyrst fram, Þoku frá Smyrlabjörgum í Suðursveit og Lóu frá Hafrafellstungu í Öxarfirði. „Þokusamsætunni“ hefur verið dreift töluvert með sæðingum en „Lóusamsætan“ er staðbundin í Norður-Þingeyjarsýslu.

Samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998 er allt kynbótastarf í sauðfjárrækt unnið á vegum Bændasamtaka Íslands og fær félagið fjármuni úr ríkissjóði til þeirra starfa. Þau eru þannig ræktunarfélag fyrir íslenska féð (www.bondi.is). Ræktunarmarkmið fyrir íslenska sauðfjárstofninn má sjá hér.

Varðveislugildi

Þrátt fyrir ítrekaðan innflutning erlendra fjárkynja seinustu aldir verður að telja að íslenski fjárstofninn beri í dag nær engin merki þeirrar innblöndunar. Fyrri fjárskipti og víðtæk notkun sæðinga gera það að verkum að telja verður stofninn einn erfðahóp með fyrirvara um skiptingu í kollótt og hyrnt fé.

Stofninn er svo vel skýrslu- og ættfærður að vart mun annað eins finnast í jafn stórum fjárstofni. Stærðin er nægileg til að standa undir mjög öflugu kynbótastarfi. Íslenska féð hefur þannig mikla sérstöðu meðal skyldra kynja þar sem stofnar eru smáir og jafnvel þegar blandaðir íslensku fé. Meðal annars með tilvísun til fyrri tilrauna til að bæta féð og mikilla ræktunarframfara seinustu ár verður að telja ólíklegt að kyninu sé á nokkurn hátt ógnað vegna innflutnings fjárkynja. Öllu frekar eru möguleikar á útrás.

Með núverandi þátttöku í skýrsluhaldi eru allir möguleikar á að stýra ræktuninni framhjá óhóflegri skyldleikarækt en nauðsynlegt er þó að fylgjast með þróun hennar.

Nauðsynlegar aðgerðir

  • Hvetja ræktendur til að viðhalda erfðafræðilegri sérstöðu íslensks sauðfjár, svo sem varðandi litafjölbreytni, hornalag, frjósemiseiginleika o.fl.
  • Að ná öllu forystufé landsins inn í skýrsluhald og ná þannig saman heildstæðum upplýsingum um ætterni forystufjár.
  • Að hvetja til fjölgunar forystufjár þannig að stofnstærð nái alþjóðlegum viðmiðunum um fjölda í stofnum sem ekki eru í útrýmingarhættu.
  • Gerð verði verndar- og ræktunaráætlun fyrir íslenska forystuféð með það að markmiði að draga úr aukningu skyldleikaræktar og viðhalda og helst auka stærð erfðahópsins.
  • Á fimm ára fresti mun erfðanefnd óska eftir skýrslu frá BÍ um erfðafræðilegt ástand sauðfjárkynjanna og kynbótamarkmið, næst árið 2022.

 

Heimildir

Heimilsfang

Hvanneyri, 311. Borgarnesi

Tölvupóstur

birna@lbhi.is

Vertu með okkur