Erfðanefnd landbúnaðarins
Íslenska kýrin
Bos Taurus
Uppruni og saga
Það er erfitt að hugsa sér að landnámsmenn hafi flutt hingað eitthvað sem kalla mætti kúastofn. Samkvæmt Landnámu komu flestir landnámsmenn frá Vestur Noregi þar sem landslag er með þeim hætti að lítill samgangur hefur verið milli fjarða og kýr í einum firði hafa því sennilega lítt eða ekki blandast kúm í þeim næsta. Þá komu landnámsmenn einnig frá öðrum hlutum Noregs og Bretlandseyjum. Hver hefur tekið með sér sínar kýr og því má ætla að erfðafjölbreytni kúastofnsins hafi í upphafi verið mikil.
Staða íslensku kýrinnar var sérstök í sveitum landsins fyrr á tímum þar sem mjólk var nánast eina uppspretta nýmetis á útmánuðum. Kýr voru ekki settar á guð og gaddinn, líkt og fé og hross, og því fór íslenski kúastofninn aldrei hlutfallslega eins langt niður í harðindum eins og annað búfé.
Útlitseinkenni og blóðflokkar sýna líkindi við Þelamerkur-, Dala- og Þrændakýr. Arfgerðargreining kynja frá Skandinavíu og Eystrasaltslöndunum bendir til sérstöðu íslenska kúakynsins og að uppruna sé að leita í norðanverðri Skandinavíu. Niðurstöður eru í samræmi við sögulegar heimildir og áætlaður aðskilnaðartími norskra og íslenskra kúakynja stenst á við tíma frá landnámi.
Íslenski kúastofninn hefur verið erfðafræðilega einangraður í 1100 ár og líklega leifar áa þeirra norrænu kynja sem horfin eru eða hanga í tilvistarmörkum. Nokkur dæmi eru um innflutning nautgripa á 18. og 19. öld, t.d. danskra nautgripa árið 1838 að Möðruvöllum og um 1870 að Spákonufelli og að afkomendur þeirra hafi dreifst nokkuð um landið. Íslenski kúastofninn er, þó lítill sé, nægilega stór til að standa undir virku kynbótastarfi og meðan hann er eini kúastofn landsins þarf ekki að hafa áhyggjur af viðgangi hans með hæfilegri aðgæslu vegna skyldleikaræktar. Það er trúlega einsdæmi, a.m.k. í okkar heimshluta, að til sé virkt, kynbótahæft kúakyn með jafn langa, einsleita og trausta forsögu og hið íslenska. Stofninn hlýtur því að teljast einstakur hvað verndunargildi varðar.
Bættar samgöngur juku flutning nauta milli landshluta sem jafnaði mun innanlands og varð enn áhrifaríkara með tilkomu sæðingastöðva. Áhersla á ákveðin svipgerðareinkenni hefur verið lítil og því hefur fjölbreytni í litum haldist. Litafjölbreytileiki er töluverður í stofninum, en algengustu litir eru rautt og bröndótt en sjaldgæfastar eru sægráar kýr40
Ræktunarstarf og nýting
Skipulagt ræktunarstarf hófst með tilkomu nautgriparæktarfélaga um og upp úr 1900. Eftir að samgöngur bötnuðu jókst flutningur nauta milli landshorna sem hefur jafnað mun milli kúa í einstökum landshlutum og þetta varð enn áhrifaríkara með tilkomu sæðingastöðva. Fjölbreytni í litum og litamunstrum er því enn mikil, en þó hefur verið meðvitað úrval gegn hyrndum gripum. Eftir að sæðingastöðvarnar voru sameinaðar hefur kynbótaskipulag alfarið tekið mið af einum ræktunarhópi.
Samkvæmt Búnaðarlögum nr. 70/1998 er allt kynbótastarf í nautgriparækt unnið á vegum Bændasamtaka Íslands. Samtökin eru þannig ræktunarfélag fyrir íslenska nautgripi og sjá um og móta ræktunarstarf í stofninum á landsvísu (www.bondi.is). Ræktunarmarkmið fyrir íslenska kúakynið má sjá hér.
Íslenski nautgripastofninn telur um 71.000 gripi og þar af eru um 25.000 mjólkurkýr. Skýrsluhald í nautgripagækt er mjög gott með yfir 90% þátttöku og eru tæplega 80% kúnna sæddar. Kynbótaskipulag miðast við einn ræktunarhóp sem endurspeglast í því að skyldleiki milli sveita var árið 2000 svipaður og innan sveita. Þar sem ekkert annað mjólkurkúakyn er ræktað á Íslandi í dag og vegna innflutningstakmarkanna á landbúnaðarvörum stendur íslenska kýrin undir langstærstum hluta af mjólkur- og mjólkurvöruneyslu landsmanna.
Fyrir árin 2000-2005 og var aukning í skyldleikarækt yfir kynslóð 0,43% og virk stofnstærð 115 gripir saman borið við 0,79% og 63 gripi fyrir árin 2005-2010. Skyldleikaræktarstuðull metinn með erfðamörkum var 8,8-9,7% og virk stofnstærð 111 einstaklingar. Engar vísbendingar fundust um skiptingu stofnsins í undirhópa né heldur um erfðafræðilega flöskuhálsa. Meðal ársnyt hefur aukist undanfarin ár og í samanburði við gömul norræn kúakyn telst íslenska kýrin standa sig vel. Auk þess er tíðni erfðavísa fyrir próteingerðum í mjólk ólík því sem algengt er í öðrum evrópskum kynjum. Telst sá munur jákvæður með tilliti til hollustu og vinnslu mjólkur.
Um nokkurra áratuga skeið hefur verið í landinu stofn Galloway nautgripa. Þrátt fyrir 80 ára sögu hér á landi hefur erfðanefnd landbúnaðarins ályktað að ekki sé ástæða til að telja Galloway gripi hér íslenskan stofn með sjálfstæðu verndargildi. Auk þess eru ræktaðir holdanautagripir af Limousin og Aberdeen Angurs kynjum.
Árið 2017 voru fluttir inn fósturvísar af Angus kyni frá Noregi og settir í íslenskar fósturmæður á sérstakri einangrunarstöð. Áformað er að endurtaka innflutning árið 2019. Markmið þessa verkefnis er að endurnýja holdanautastofninn og auka möguleika bænda á framleiðslu nautakjöts. Þessi stofn er ekki ætlaður til innblöndunar í íslenska kúakynið.
Það er trúlega einsdæmi að til sé virkt, kynbótahæft kúakyn með jafn langa, einsleita og trausta forsögu og hið íslenska. Íslenski kúastofninn er nægilega stór til að standa undir virku kynbótastarfi og meðan hann er eini kúastofn landsins þarf ekki að hafa áhyggjur af viðgangi hans, en aðgæslu þarf vegna skyldleikaræktar. Unnið hefur verið að undirbúningi þess að nýta hugbúnað (EVA) við nautaval sem tekur tillit til aukningar á skyldleikarækt í stofninum. Þessi aðferðafræði hefur ekki enn verið tekin í notkun. Ástæða er til árvekni varðandi mögulegar breytingar á stöðu stofnsins ef markaðsaðstæður breytast. Unnið er að undirbúningi erfðamengjaúrvals að erlendri fyrirmynd í ræktun íslenska kúakynsins sem mun að líkindum koma til framkvæmda innan 4-5 ára. Ekki er ljóst að svo stöddu hvaða áhrif nýjar kynbótaaðferðir munu hafa á skyldleikarækt innan stofnsins. Að óbreyttu verður að telja stöðu íslenska kúastofnsins allgóða og því ekki þörf fyrir umfangsmiklar aðgerðir honum til verndar en breytinga er sennilega að vænta sem fylgjast þarf með.
Nautasæði hefur frá upphafi sæðinga verið safnað og geymt í frysti hjá Nautastöð Bændasamtaka Íslands og mun vera til þar sæði úr öllum nautum sem verið hafa í stöðinni.
Nauðsynlegar aðgerðir
- Hvetja ræktendur til þess að nýta aðferðir við kynbótamat sem draga úr aukningu í skyldleikarækt í stofninum t.d. með notkun EVA hugbúnaðarins eða sambærilegra forrita til að velja naut til sæðinga og stýra notkun þeirra.
- Fylgjast náið með ástandi stofnsins m.t.t. stærðar erfðahópsins og kynbótamarkmiða og áhrifa nýrra kynbótaaðferða.
- Gera úttekt á verðmæti og verndunargildi kúastofnsins. Þar verði einnig tekið á ræktun og viðhaldi verndaðs stofns ef til innflutnings kemur.
- Á fimm ára fresti mun erfðanefnd óska eftir skýrslu frá RML um erfðafræðilega stöðu stofnsins, næst árið 2019.